Sportabler og Nóri sameinast
Sameinað lausnaframboð getur veitt íþróttafélögum, sveitarfélögum og háskólasamfélaginu verðmætar upplýsingar um stöðu íþróttastarfs.
Fyrirtækin Greiðslumiðlun Íslands og Abler hafa náð samkomulagi um að samtvinna lausnaframboð sitt á sviði hugbúnaðar fyrir íþrótta- og tómstundastarf. Samtvinning Nóra og Sportabler gerir fyrirtækjunum kleift að hugsa stærra og þróa frekari virðisaukandi lausnir til að þjónusta íþróttafélögin auk þess að styðja við það mikilvæga samfélagslega starf sem unnið er innan íþróttahreyfingarinnar á hverjum degi. Markmið þeirrra er að hjálpa sem flestum íþróttaiðkendum að tileinka sér gildi og jákvæðar venjur sem veganesti fyrir lífið, ásamt því að iðkendur njóti þess að stunda íþróttir og rækti félagsleg tengsl við aðra.
Í viðtali við Skinfaxa, tímarit UMFÍ, segir Markús Máni Michaelsson, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Sportabler, sameininguna opna mikla möguleika. „Í raun getum við veitt íþróttahreyfingunni og þeim sem vilja rannsaka stöðuna upplýsingar nokkurn veginn á rauntíma á t.d. nýliðun eða brottfalli, kallað fram stöðu eftir póstnúmerum og séð til hvaða hópa þarf að ná betur. Þá getum við líka séð hvað virkar og hvað virkar ekki, hvaða umgjörð og aðferðafræði heldur iðkendum lengur í íþróttum, eða hvað kann að leiða til þess að iðkendur hætta. Íþrótta- og tómstundastarf er samfélaginu gríðarlega verðmætt og nú getum við verið enn gagnadrifnari í allri framþróun, samvinnu og miðlun þekkingar. Samhliða þessu vinnum við hörðum höndum að nýrri og spennandi þjónustu sem við munum kynna fyrir félögum á næstu misserum.“
Alfa Framtak, sem fjárfesti í Greiðslumiðlun Íslands árið 2019, fagnar þessari vegferð Nóra og Sportabler.
Viðtalið í heild sinni birtist í Skinfaxa, tímariti UMFÍ, þann 25. janúar 2021