Hvernig kaupir maður fyrirtæki?

Árni Jón Pálsson, fjárfestingastjóri og einn stofnenda Alfa Framtaks, ræddi við Tinna og Andrés hjá Góðum Samskiptum um Alfa Framtak, sérhæfðar fjárfestingar og kaup á óskráðum fyrirtækjum í nýjum hlaðvarpsþætti.

Árni Jón Pálsson, fjárfestingastjóri og einn stofnenda Alfa Framtaks, var viðmælandi í hlaðvarpsþættinum Ræðum Það sem haldið er úti af þeim Andrési Jónssyni og Tinna Kára Jóhannessyni hjá Góðum Samskiptum. Í þættinum leitast Árni Jón við að svara því hvernig fjárfest er í óskráðum fyrirtækjum og hvernig Alfa Framtak nálgast greiningar og eignarhald.

Í þættinum nefnir hann meðal annars að markmið Alfa Framtaks sé að kaupa góð fyrirtæki og stuðla að því að gera þau betri. Rætt er um 100 daga planið, sem felst í markvissri stefnumótun með lykilstjórnendum og stjórnarsetu. Jafnframt stiklar Árni Jón á stóru um samskipti við fyrirtækjaráðgjafa, mikilvægi mannauðsins í hverju fyrirtæki, og tækifæri sem geta falist í stefnum og straumum í viðskiptalífinu.

Árni Jón hefur starfað í átta ár á fjármálamarkaði og vann m.a. í fyrirtækjaráðgjöf Icora Partners, þar sem hann vann að verkefnum á sviði fjármögnunar, endurskipulagningar og kaupum og sölu fyrirtækja. Árni Jón hefur gengt ýmsum stjórnarstörfum, þar á meðal hjá skráða félaginu Heimavöllum og sem stjórnarformaður Borgarplasts og Málmsteypu Þorgríms Jónssonar. Áður starfaði hann hjá Arctica Finance og þar á undan Landsbankanum. Árni Jón er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann var á 40/40 lista Góðra Samskipta, en sá listi beinir sjónum að fólki undir fertugt sem er að ná eftirtektarverðum árangri í atvinnulífinu.

Previous
Previous

Sportabler og Nóri sameinast

Next
Next

„Stórt skref í stærri vegferð“