Samið um kaup á Reykjafelli

Alfa Framtak hefur samið um kaup á 90% hlut í Reykjafelli, en endanleg viðskipti eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Reykjafell er framsækið fyrirtæki sem býður upp á heildarlausnir á sviði raf- og lýsingarbúnaðar á fyrirtækjamarkaði. Reykjafell var stofnað árið 1956 og hefur nú þjónað íslenskum rafiðnaði í 67 ár. Hjá fyrirtækinu starfar öflug liðsheild sérfræðinga og er fyrirtækið með um 200 umboð. Framkvæmdastjóri félagsins er Þórður Illugi Bjarnason, en hann hefur umbylt og nútímavætt reksturinn svo um munar á síðustu árum. Reykjafell hefur verið framúrskarandi fyrirtæki hjá CreditInfo frá árinu 2016 og hefur fengið verðlaun sem fyrirtæki ársins síðastliðin 3 ár frá VR.

Líkt og fram kemur á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins fékk stofnunin fullnægjandi samrunatilkynningu þann 24. ágúst 2023 og má því vænta þess að niðurstaða komi í málið fyrir 29. september næstkomandi. Fjárfestingin verður gerð í gegn um sjóðinn Umbreytingu II slhf. og eignarhaldsfélagið AU 24 ehf. Seljandi er Rafmagnsfell ehf., en eigendur eru þeir Ottó Eðvarð Guðjónsson og Þorvaldur Sveinn Guðmundsson.

Alfa Framtak ehf. er rekstraraðili sérhæfðra sjóða. Alfa Framtak sérhæfir sig í fjárfestingum og stuðningi við stjórnendur, athafnafólk og fyrirtækjaeigendur sem vilja ná því besta út úr sínum rekstri. Markmið félagsins er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu og þannig skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi.

Previous
Previous

Fanndís til Alfa Framtaks

Next
Next

Alfa Framtak fjárfestir í hótelum