Fanndís til Alfa Framtaks

Fanndís Sara Guðjónsdóttir hefur verið ráðin til Alfa Framtaks, þar sem hún mun starfa við fjármál, rekstur og eftirlit. Fanndís kemur til Alfa Framtaks af fjármálasviði Marel.

Fanndís Sara Guðjónsdóttir hefur verið ráðin til Alfa Framtaks og mun starfa við fjármál, rekstur og eftirlit. Hún kemur til Alfa Framtaks frá Marel, en hún starfaði áður á fjármálasviði Marel þar sem hún sinnti fjölbreyttum verkefnum sem sérfræðingur í reikningsskilum og uppgjörum. Fanndís er með B.Sc. í hagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla, MCF í fjármálum fyrirtækja og MBM í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Meðfram meistaranámi sínu var Fanndís hjá Icelandair Group sem starfsnemi í fjár- og áhættustýringu.

Alfa Framtak ehf. er rekstraraðili sérhæfðra sjóða, en fyrirtækið sérhæfir sig í fjárfestingum og stuðningi við stjórnendur, athafnafólk og fyrirtækjaeigendur sem vilja ná því besta út úr sínum rekstri. Markmið félagsins er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu og þannig skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi. Sem samstarfsaðili beitir Alfa Framtak sér með virkum hætti og hefur sveigjanleika til þess að fjárfesta í fjölbreyttum fyrirtækjum, styðja við vöxt og leiða umbreytingar.

Alfa Framtak rekur tvo framtakssjóði með með samtals 22 milljarða króna í áskriftarloforð. Sjóðir í rekstri Alfa Framtaks hafa fjárfest í fyrirtækjum á borð við Origo, INVIT, Thor Ice Chilling Solutions, Nox Health, Greiðslumiðlun Íslands, Travel Connect, Borgarplast og Málmsteypu Þorgríms Jónssonar.

Previous
Previous

Alfa Framtak fjárfestir í Hótel Umi

Next
Next

Samið um kaup á Reykjafelli