Með 63% í Origo

Þann 19. janúar 2023 gerði AU 22 ehf., félag í fullri eigu Umbreytingar II slhf., framtakssjóðs í rekstri Alfa Framtaks ehf., hluthöfum Origo hf. valfrjálst tilboð í skilningi X. og XI. kafla laga nr. 108/2007 um yfirtökur („lög um yfirtökur“), með þeim skilmálum og skilyrðum sem fram komu í opinberu tilboðsyfirliti dagsettu sama dag. Gildistími tilboðsins rann út kl. 13:00 þann 22. febrúar 2023. Um helmingur hluthafa Origo hf. samþykkti tilboðið og bárust samþykki fyrir alls 47.193.948 hlutum í Origo hf., eða sem nemur 33,71% alls hlutafjár.

Samkeppniseftirlitið tilkynnti AU 22 ehf. þann 17. febrúar 2023 að ekki væru forsendur til þess að aðhafast vegna tilboðsins og þar með var eina skilyrði tilboðsins uppfyllt. Greiðsla til þeirra sem samþykktu tilboðið og afhending hluta til AU 22 ehf. fer fram 1. mars 2023.

Á þeim degi sem tilboðið var sett fram fór AU 22 ehf. með 41.010.308 hluti í Origo hf. sem samsvarar 29,29% af hlutafé félagsins. Eftir tilboðið fer AU 22 ehf. með 88.204.256 hluti í Origo hf. sem samsvarar 63,00% af hlutafé félagsins.

Að loknu tilboði hefur AU 22 ehf. því öðlast yfirráð í Origo hf. í skilningi laga um yfirtökur en þar sem valfrjálsa tilboðið uppfyllti skilyrði ákvæða 2.-4. mgr. 103. gr. laganna eins og um skyldubundið yfirtökutilboð væri að ræða verður AU 22 ehf. ekki skylt að gera yfirtökutilboð í samræmi við 100. gr. laganna.

„Við erum þakklát fyrir þann góða hljómgrunn sem tilboð okkar hlaut meðal hluthafa Origo, en um helmingur hluthafa félagsins samþykkti tilboðið. Ljóst er að með þessu myndar Alfa Framtak mikilvæga kjölfestu í félaginu og þeirri umbreytingu sem framundan er. Við hlökkum til að raungera framtíðarsýn okkar í góðu samstarfi með núverandi stjórnendum Origo og öðrum hluthöfum.“

segir Gunnar Páll Tryggvason framkvæmdastjóri Alfa Framtaks í tilkynningu.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var umsjónaraðili valfrjálsa tilboðsins fyrir hönd AU 22 ehf. og LEX veitti AU 22 ehf. lögfræðilega ráðgjöf í tilboðsferlinu.

Tilkynningin á íslensku

Tilkynningin á ensku

Previous
Previous

Kauphöllin samþykkir afskráningu Origo

Next
Next

Alfa Framtak selur hlut sinn í Nox Health