Alfa Framtak selur hlut sinn í Nox Health

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Vestar Capital Partners hefur keypt stjóran hlut í íslenska svenfrannsóknarfyrirtækinu Nox Health - annars vegar með hlutafjáraukningu og kaupum á eignarhlut af núverandi hluthöfum. Líkt og fram kom í fréttatilkynningu seldi sjóður í rekstri Alfa Framtaks allt sitt hlutafé í þessum viðskiptum. Alfa Framtak vill nýta tækifærið til þess að þakka fyrir farsælt samstarf og óskar stjórnendum og hluthöfum áframhaldandi velgengni á komandi árum.

Alfa Framtak kom að félaginu árið 2019 með það að leiðarljósi að styðja við sameiningu Nox Medical og Fusion Health undir merkjum Nox Health. Með sameiningunni var stefnt að því að auka sókn á erlendum mörkuðum og hraða vexti. Samstarfið hefur verið afar farsælt en á tímabilinu tvöfaldaði Alfa Framtak fjárfestingu sína. Eftir þessa sölu verður búið að skila hluthöfum um helmingi allra áskriftarloforða.

Canaccord Genuity var ráðgjafi Nox Health en Kvika Securities Ltd í London var ráðgjafi Nox Holding í þessum viðskiptum.

Fréttatilkynning Nox í heild sinni

Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Vestar Capital Partners hefur keypt stóran hlut í íslenska svefnrannsóknarfyrirtækinu Nox Health, sem er móðurfélag Nox Medical ehf. Kaup Vestar eru annarsvegar gerð með hlutafjáraukningu og hinsvegar með kaupum á eignarhlut af núverandi hluthöfum. Seljandi er að langstærstum hluta framtakssjóður í rekstri Alfa Framtaks ehf., sem lætur allt hlutafé af hendi. Á þessu stigi gefur félagið ekki upplýsingar um fjárhæðir í viðskiptunum.

Hlutafjáraukningunni er ætlað að styðja við öran vöxt Nox Health og styrkja enn frekar stöðu þess sem leiðandi fyrirtæki á sínu sviði. Nox Holding ehf. fer eftir sem áður með stærstan eignarhlut í Nox Health en félagið er að langstærstum hluta í eigu stjórnenda og stofnenda.

„Markmið okkar er að bæta svefnheilsu fólks um allan heim með því að auðvelda aðgengi að heilbrigðisþjónustu þar sem svefnvandamál eru meðhöndluð með þeim tæknilausnum og þjónustu sem við höfum upp á að bjóða. Þannig aukum við bæði gæði þjónustunnar og lækkum kostnað. Vestar Capital Partners er traustur fagfjárfestir sem leggur Nox til mikla sérþekkingu og reynslu úr heilbrigðisgeiranum og gefur okkur tækifæri til að sækja enn hraðar fram meðal annars á sviði þróunar, framleiðslu og dreifingu lækningavara,“ segir Sigurjón Kristjánsson, forstjóri Nox Health. „Á þessum tímapunkti eru stjórnendur Vestar Capital Partners frábærir félagar til að taka við keflinu sem kjölfestufjárfestir í Nox Health. Reynsla þeirra, þekking, tengsl og fjárfestingar innan bandaríska heilbrigðiskerfisins færir ómæld verðmæti inn í Nox. Um leið og við bjóðum þá velkomna í hluthafahópinn færum við Alfa Framtaki bestu þakkir fyrir frábært samstarf sem hefur reynst félaginu ákaflega heilladrjúgt. Án aðkomu þeirra á sínum tíma væri félagið ekki í þeirri sterku stöðu sem það er í dag.“

„Svefnleysi er alvarlegt heilsufarslegt vandamál og tengt sjö af fimmtán algengustu dánarorsökum fólks,“ segir Roger Holstein, framkvæmdastjóri hjá Vestar Capital Partners. „Nox Health er fremst allra fyrirtækja í að þróa lækningatæki til greiningar á svefnvandamálum auk þess sem Nox hefur hannað einstakar tækni- og þjónustulausnir sem notaðar eru til að veita alhliða heilbrigðisþjónustu við greiningu, meðhöndlun og eftirfylgni á svefnvanda. Lausnir Nox eru hannaðar með hagsmuni notenda að leiðarljósi og með þeim má stórauka gæði þjónustu og lækka kostnað í heilbrigðiskerfinu. Tækifærin fyrir Nox Health eru svo sannarlega til staðar enda tugir milljóna manna sem eiga enn eftir að finna lausn sinna svefnvandamála. Við hjá Vestar Capital Partners erum spennt að fá að taka þátt í þessu verkefni og leggja okkar lóð á vogarskálarnar á næsta vaxtarskeiði Nox Health.“

„Alfa Framtak kom að félaginu árið 2019 með það að leiðarljósi að styðja við sameiningu Nox Medical og Fusion Health undir merkjum Nox Health. Með sameiningunni var stefnt að því að auka sókn á erlendum mörkuðum og hraða vexti. Samstarf okkar og félagsins hefur verið farsælt, settum markmiðum var náð og ávöxtun hluthafa góð. Þó okkar kafla sé lokið verður spennandi að fylgjast með Nox Health næstu árin. Félagið er leiðandi á sínu sviði og vinnur að því að leysa svefntengd heilsufarsvandamál. Tækifærin til vaxtar eru mikil og óskum við stjórnendum og hluthöfum áframhaldandi velgengni á komandi árum,“ segir Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks.

Canaccord Genuity var ráðgjafi Nox Health en Kvika Securities Ltd í London var ráðgjafi Nox Holding í þessum viðskiptum.

Um Nox Health

Nox Health varð til við samruna Nox Medical og bandaríska hlutdeildar félags þess FusionHealth árið 2019. Fyrirtækið skiptist í þrjár rekstrareiningar; Nox Medical, Nox Enterprise og FusionSleep og eru höfuðstöðvar þess í Atlanta í Bandaríkjunum og Reykjavík. Nox Health er brautryðjandi á sviði heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum sem miðar að því að bæta heilsu fólks með því að tryggja því betri svefn með markvissri greiningu, meðhöndlun og eftirfylgni á svefnvanda. Nox er leiðandi í framleiðslu á tækni og tækjabúnaði sem notaður er til greiningar á svefnröskunum. Búnaðurinn er notaður af læknum og heilbrigðisstarfsmönnum um allan heim og ætla má að 2,5 milljónir manna njóti árlega bættrar svefnheilsu þar sem lausnir Nox Health eru en þegar hafa hátt í hundrað svefntruflanir verið skilgreindar. Hjá Nox starfa um þrjú hundruð starfsmenn og þar af tæplega 100 á Íslandi við þróun, framleiðslu og markaðssetningu lækningavara undir merkjum Nox Medical.

Um Vestar Capital Partners

Vestar Capital Partners er leiðandi fjárfestingarsjóður sem sérhæfir sig í langtíma vaxtarfjárfestingum. Sjóðurinn fjárfestir í fyrirtækjum sem starfa í tækni- og heilbrigðisgeiranum. Frá stofnun árið 1988 hefur Vestar fjárfest fyrir um 11 milljarða dollara í 90 fyrirtækjum og gert í framhaldi meira en 200 viðbótar fjárfestingar fyrir samtals um 52 milljarða dollara. Nánari upplýsingar um Vestar má finna á heimasíðu fyrirtækisins vestarcapital.com.

Um Alfa Framtak

Alfa Framtak ehf. er rekstraraðili sérhæfðra sjóða, en fyrirtækið sérhæfir sig í fjárfestingum og stuðningi við stjórnendur, athafnafólk og fyrirtækjaeigendur sem vilja ná því besta út úr sínum rekstri. Markmið félagsins er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu og þannig skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi. Sem samstarfsaðili beitir Alfa Framtak sér með virkum hætti og hefur sveigjanleika til þess að fjárfesta í fjölbreyttum fyrirtækjum, styðja við vöxt og leiða umbreytingar. Alfa Framtak rekur tvo framtakssjóði með með samtals 22 milljarða króna í áskriftarloforð. Sjóður í rekstri Alfa Framtaks fjárfesti í Nox Health árið 2019 og bætti við stöðu sína í félaginu árið 2021.

Previous
Previous

Með 63% í Origo

Next
Next

Alfa Framtak fjárfestir í Thor Ice