Alfa Framtak fjármagnar kaupin á Iceland Travel
Icelandair Group og Nordic Visitor hafa skrifað undir samning um kaup Nordic Visitor á 100% hlut í Iceland Travel. Alfa Framtak fjármagnar kaupin hjá Nordic Visitor. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Í samningnum er heildarvirði (e. enterprise value) Iceland Travel metið á ISK 1,4 milljarða en þar af eru ISK 350 milljónir háðar frammistöðutengdum mælikvörðum út árið 2023. Kaupverðið verður aðlagað að nettó skuldum og rekstrarfjármunum Iceland Travel, en fram kemur að nettó skuldir ferðaskrifstofunnar séu óverulegar.
Arctica Finance var ráðgjafi Nordic Visitor við kaupin og Íslandsbanki ráðgjafi Icelandair.
Icelandair sendi út kauphallartilkynningu í kjölfar undirritunar kaupsamnings. Í frétt Viðskiptablaðsins segir Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor, vera spenntur fyrir þeirri vegferð sem er framundan.
„Iceland Travel hefur verið leiðandi ferðaskrifstofa á fyrirtækjamarkaði með öflugu og reynslumiklu starfsfólki og sterkum viðskiptasamböndum. Ég er mjög spenntur fyrir því að kynnast betur starfsemi félagsins og starfsmönnum og hefja störf með því starfsfólki sem byggir upp félagið. Fyrirtækin Iceland Travel og Nordic Visitor eru að mörgu leyti ólík félög en með samstarfi má byggja upp sterkari heild og auka samkeppnishæfni félagsins gagnvart erlendri samkeppni. Ekki er fyrirhugað að sameina fyrirtækin heldur verður lögð áhersla á að deila þekkingu á milli fyrirtækjanna. Þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi íslenskrar ferðþjónustu þá eru enn mikil tækifæri til uppbyggingar. Ég hef trú á því að ferðaþjónusta á Íslandi muni ná vopnum sínum fyrr en margir telja og samstarf félaganna styðji við uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu.“
Salan er í samræmi við stefnu Icelandair Group um að leggja áherslu á kjarnastarfsemi sína, flugrekstur, með hagsmuni íslenskrar ferðaþjónustu, starfsmanna og annarra haghafa í fyrirrúmi.
Árni Jón Pálsson, fjárfestingastjóri hjá Alfa Framtak, segir jafnframt hafa mikla trú á fyrirtækinu.
„Viðskiptin marka ákveðin tímamót nú þegar farið er að sjá fyrir endann á heimsfaraldrinum og útlit er fyrir að ferðaþjónustan sé á hröðum batavegi. Framundan eru krefjandi verkefni sem fela í sér umbreytingar á rekstri og efnahag félaganna og munum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar við áframhaldandi uppbyggingu þeirra.“
Fréttir og tilkynningar:
Icelandair Group hf.: Share Purchase Agreement regarding the sale of Iceland Travel
Fréttablaðið: Alfa Framtak fjármagnar kaupin á Iceland Travel
Alfa Framtak - Umbreyting I - Nordic Visitor - Iceland Travel - Frétt