Alfa Framtak fjárfestir í Gröfu og grjót
Framtakssjóður á vegum Alfa Framtaks hefur keypt ráðandi hluti í Gröfu og grjót ehf.
Framtakssjóðurinn Umbreyting slhf., í rekstri Alfa Framtaks, hefur keypt 60% hlut í Gröfu og grjóti ehf. Samkeppniseftirlitið taldi enga ástæðu til íhlutunar vegna kaupanna. Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.
Grafa og grjót ehf. var stofnað árið 2002 af Sigurði S. Gylfasyni, sem hefur verið eini hluthafinn til þessa. Starfsemi Gröfu og grjót felst fyrst og fremst í hverskyns jarðvegsvinnu og framkvæmdum, t.d. fleygun, fyllingu, gröfuvinnu, grjótröðun, þjöppun og lóðalögun. Fyrirtækið starfar einna helst fyrir sveitarfélög og ýmis verktakafyrirtæki.
Alfa Framtak ehf. er rekstraraðila sérhæfðra sjóða, sbr. 7. gr. laga nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Alfa Framtak sérhæfir sig í fjárfestingum og stuðningi við stjórnendur, athafnafólk og fyrirtækjaeigendur sem vilja ná því besta út úr sínum rekstri. Markmið félagsins er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu og þannig skilja eftir jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi.