Bæta við stöðu sína í Nox Health

Sjóður í rekstri Alfa Framtaks hefur bætt við hlut sinn í svefnrannsóknarfyrirtækinu Nox Health. Árni Jón Pálsson, fjárfestingastjóri hjá Alfa Framtak, segir fjárfestinguna undirstrika trú þeirra á starfsemi Nox Health.

Sjóður í rekstri Alfa Framtaks hefur bætt við stöðu sína í svefnrannsóknarfyrirtækinu Nox Health. Hlutirnir voru keyptir af öðrum hluthöfum og sá Kvika banki um sölu bréfanna fyrir hönd seljanda. Sjóðurinn eignaðist fyrst hluti í Nox Health haustið 2019 þegar félagið sótti sér nýtt hlutafé til frekari vaxtar.

Árni Jón Pálsson, fjárfestingastjóri hjá Alfa Framtak, segir trúnna á fyrirtækinu vera mikla. „Frá stofnun sjóðsins höfum við fjárfest í fjórum fyrirtækjum og er Nox Health það eina í eignasafni okkar sem er með meginstarfsemi sína fyrir utan Ísland. Fyrirtækið þróar og selur sérhæfðar svefnlausnir, starfar á stórum og ört vaxandi markaði og er að leysa mikilvægt vandamál, en um 20% fólks í heiminum glímir við svefnkvilla. Við hjá Alfa Framtak höfum mikla trú á félaginu og starfsmönnum þess og er þessi viðbótarfjárfesting merki um það.“

Nox Health varð til við samruna Nox Medical og bandaríska systurfélagi þess FusionHealth. Nox Health er leiðandi í framleiðslu á tækni og tækjabúnaði sem notaður er til greiningar á svefnröskunum. Búnaðurinn er notaður af læknum og heilbrigðisstarfsmönnum um allan heim og ætla má að 2,5 milljónir manna njóti árlega bættrar svefnheilsu þar sem lausnir Nox Health eru notaðar til greiningar á svefnvandamálum.

Nox Health er jafnframt meðal þátttakenda í Svefnbyltingunni – þverfaglegu og alþjóðlegu rannsókna- og þróunarverkefni, sem leitt er af Ernu Sif Arnardóttur, lektor við Háskólann í Reykjavík. Umrætt verkefni hefur fengið tveggja og hálfs milljarða króna, eða 15 milljón evra, styrk til fjögurra ára úr Horizon 2020 rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun.

Previous
Previous

Alfa Framtak fjármagnar kaupin á Iceland Travel

Next
Next

Fjárfestingar í lágvaxtaumhverfi