INVIT ný samstæða innviðafyrirtækja

INVIT hefur nú formlega verið stofnað, en um er að ræða nýja samstæðu sem hefur það meginhlutverk að sameina reynd íslensk innviðafyrirtæki undir einni regnhlíf. Með þessu er stefnt að því að festa í sessi þá þekkingu sem skapast hefur í stórframkvæmdum hér á landi og jafnframt að gera innviðafjárfestingar á Íslandi að öruggari valkosti fyrir fjárfesta. Að baki stofnun fyrirtækisins er framtakssjóður í rekstri Alfa Framtaks og teymi Gröfu & Grjót, en síðarnefnt fyrirtæki verður lykilstoð í nýju samstæðunni. Dótturfélögin munu starfa sjálfstætt undir eigin vörumerkjum.

Stofnun INVIT kemur í kjölfar fjárfestingar Alfa Framtaks í Gröfu & Grjót sem tilkynnt var um mitt ár 2021. Grafa & Grjót hefur yfir 20 ára reynslu á sviði jarðvinnu og gatnagerðar. „Okkar megin markmið er að efla íslenska innviði til framtíðar. Næstu árin mun bæði þurfa að ráðast í stórar framkvæmdir og sinna viðhaldi á íslenskum innviðum, en til þess að sinna þessum verkefnum með áreiðanlegum hætti þarf öfluga heild með sérhæfðri þekkingu, sem getur staðið af sér mismunandi aðstæður í efnahagslífinu,“ segir Guðgeir Freyr Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Gröfu & Grjót.

Undir hatti INVIT starfa nú 87 manns, annars vegar hjá Gröfu & Grjót en einnig Steingarði. Framundan er frekari stækkun INVIT með það fyrir augum að fanga stærri hluta virðiskeðjunnar þ.e. að sinna verkefnum á sviði jarðvinnu, vegagerðar og stórframkvæmda um land allt. „Frá 2021 höfum við fjárfest í Gröfu & Grjót og Steingarði. Við hyggjumst bæta öðrum félögum við samstæðuna og þannig mynda eina sterka heild. Með því að fá bestu aðilanna undir eitt öflugt móðurfélag, náum við að leggja leiðina fyrir íslenska innviði, öruggar fjárfestingar og sjálfbærari framtíð,“ segir Árni Jón Pálsson, stjórnarformaður INVIT og fjárfestingastjóri hjá Alfa Framtak.

Sjálfbærni er jafnframt stórt atriði í greininni, en löggjafinn og samfélagið gera sífellt ríkari kröfur til framkvæmdaraðila. Til þess að koma til móts við þær kröfur þarf að móta sameiginlega stefnu og leita leiða til þess að minnka umhverfisfótspor fyrirtækja í greininni, auka öryggi starfsfólks og tryggja góða stjórnarhætti. Sameiginlegt móðurfélag getur stutt frekar við dótturfélögin til þess að ná þeim markmiðum.

Umfjöllun í fjölmiðlum:

Innherji

Viðskiptablaðið

Previous
Previous

Anna Þorbjörg til Alfa Framtaks

Next
Next

Kauphöllin samþykkir afskráningu Origo