Anna Þorbjörg til Alfa Framtaks

Anna Þorbjörg Jónsdóttir hefur verið ráðin til starfa sem forstöðumaður viðskiptaþróunar og viðskiptatengsla hjá Alfa Framtaki. Samhliða ráðningunni gengur Anna Þorbjörg inn í hluthafahóp félagsins.

Anna Þorbjörg býr yfir áralangri reynslu af störfum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Hún kemur til Alfa Framtaks frá Fossum fjárfestingarbanka þar sem hún starfaði sem framkvæmdastjóri eignastýringar. Þar áður starfaði Anna Þorbjörg sem fjárfestingastjóri hjá World Financial Desk, hátækni fjármálafyrirtæki með aðsetur í New York, en hún var jafnframt einn stofnenda félagsins og stjórnarformaður.

Anna Þorbjörg er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands, M.A. gráðu í hagfræði frá UCLA og M.Sc. gráðu í fjármálastærðfræði frá USC. Anna Þorbjörg hefur lokið prófum í verðbréfaviðskiptum á Íslandi og í Bandaríkjunum.

„Ég hlakka mikið til að taka þátt í spennandi verkefnum og áframhaldandi vexti hjá Alfa Framtaki með framúrskarandi teymi. Ég hef lengi haft áhuga á framtaksfjárfestingum og þeirri jákvæðu uppbyggingu sem slíkar fjárfestingar leiða gjarnan til fyrir fyrirtæki, fjárfesta og samfélagið,“ segir Anna Þorbjörg sem hefur störf hjá félaginu 1. september næstkomandi.

"Við erum spennt og hamingjusöm að fá Önnu Þorbjörgu til liðs við okkur. Hún býr að dýrmætri þekkingu, tengslum og reynslu hér heima og erlendis. Það veganesti er mikilvæg viðbót í þá vegferð sem Alfa Framtak er á," segir Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks.

Alfa Framtak ehf. er rekstraraðili sérhæfðra sjóða, en fyrirtækið sérhæfir sig í fjárfestingum og stuðningi við stjórnendur, athafnafólk og fyrirtækjaeigendur sem vilja ná því besta út úr sínum rekstri. Markmið félagsins er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu og þannig skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi. Sem samstarfsaðili beitir Alfa Framtak sér með virkum hætti og hefur sveigjanleika til þess að fjárfesta í fjölbreyttum fyrirtækjum, styðja við vöxt og leiða umbreytingar.

Alfa Framtak rekur tvo framtakssjóði með með samtals 22 milljarða króna í áskriftarloforð. Sjóðir í rekstri Alfa Framtaks hafa fjárfest í fyrirtækjum á borð við Origo, INVIT, Thor Ice Chilling Solutions, Nox Health, Greiðslumiðlun Íslands, Travel Connect, Borgarplast og Málmsteypu Þorgríms Jónssonar.

Previous
Previous

Áslaug til Alfa Framtaks

Next
Next

INVIT ný samstæða innviðafyrirtækja