Hundrað daga plan leggur grunn að umbreytingum Alfa Framtaks
Fjárfestingar Alfa Framtaks, sem nýlega gekk frá fjármögnun á 15 milljarða króna framtakssjóði, í fjölskyldufyrirtækjum hafa miðað að því að gera fyrirtækin óháð eigendum þeirra svo að þeir verði með seljanlega eign í höndunum og ekki bundnir við reksturinn til elífðarnóns. Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri segir að eftir hverja fjárfestingu sé ráðist í hundrað daga plan sem leggur grunninn að ábatasömu eignarhaldi.
Hugmyndin á bak við framtakssjóði, sem fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum, á sér meira en 40 ára sögu en sjóðir af þessu tagi litu þó ekki dagsins ljós á Íslandi fyrr en eftir fjármálahrunið. Fjöldi fjárfestingafélaga hafði lagt niður starfsemi og bankarnir voru með mikið af óskráðum eignum á efnahagsreikningum sínum.
„Framan af snerust verkefni framtakssjóða að miklu leyti um að taka fyrirtæki af efnahagsreikningum bankanna, beita eins konar fjármálaverkfræði til að endurskipuleggja þau og skrá á markað. En erlendis hafði þróunin verið í þá átt að beita virkri rekstrarnálgun og við sáum fram á að íslenski markaðurinn myndi fara sömu leið,“ segir Gunnar sem býr fyrir ríflega 20 ára reynslu af framtaksfjárfestingum og fyrirtækjaráðgjöf, og hefur stýrt slíkum verkefnum í 10 löndum.
Alfa Framtak setti sinn fyrsta sjóð, Umbreytingu I, á laggirnar árið 2018. Sjóðurinn skar sig úr hópi annarra framtakssjóða á Íslandi að því leyti að tæp 60 prósent af fjármagninu – áskriftir námu alls 7 milljörðum króna – komu frá einstaklingum. Venjan hafði verið að mikill meirihluti áskrifta kæmi frá stofnanafjárfestum, einkum lífeyrissjóðum.
„Við höfum lagt mikið upp úr því að fá fólk með mikla þekkingu á fjárfestingum og rekstri til liðs við okkur. Tilhneigingin er oft sú að leita nær einungis til fjársterkustu stofnanafjárfestanna sem geta skrifað stærstu ávísanirnar en við leitumst við að safna fjármagni frá athafnafólki.“
Samsetning áskrifta í Umbreytingu II var með svipuðu móti en um 40 prósent komu frá öðrum en lífeyrissjóðum.
„Við viljum ekki „parkera“ fjármagni heldur koma með eitthvað virði að borðinu. Ein leið til þess er að geta miðlað okkar þekkingu af alls konar rekstri og að hafa unnið með mörgum stjórnendum og séð hvað hefur virkað og hvað ekki.“
Annað sem sker Alfa Framtak úr hópi íslenskra framtakssjóða er áherslan á að allir í ferlinu hafi eitthvað að undir sjálfir, eða „skin in the game,“ eins og Gunnar kemst að orði. Hver einasti starfsmaður Alfa Framtaks og hver einast stjórnarmaður hefur fjárfest í sjóðunum.
„Við samstillum þannig hagsmuni með þeim aðilum sem hafa lagt fé í sjóðinn og tryggjum betur að verkefnum sé fylgt eftir til enda hvort sem þau ganga vel eða illa.“