Hreyfiafl í íslensku atvinnulífi

Fjárfestingastjórar hjá Alfa Framtaki stefna á að nýr 15 milljarða sjóður verði ákveðið hreyfiafl í íslensku atvinnulífi.

Alfa Framtak lauk á dögunum fjármögnun á 15 milljarða króna framtakssjóðnum Umbreytingu II, sem mun fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum. Hluthafar nýja sjóðsins eru 36 talsins og samanstendur af lífeyrissjóðum, tryggingafélögum og fjársterkum einstaklingum. Sjóðurinn mun fjárfesta í fimm til níu fyrirtækjum og stefnt á að eignarhaldstíminn verði um fjögur til sex ár í hverju félagi. Alfa Framtak hefur frá árinu 2018 rekið sjö milljarða framtakssjóðinn Umbreytingu slhf. en sá sjóður er nú full fjárfestur.

Árni Jón Pálsson og Markús Hörður Árnason, meðeigendur og fjárfestingastjórar hjá Alfa Framtaki, segja nýja sjóðinn hafa sambærilegar áherslur og sá fyrri en Umbreyting fjárfesti í Borgarplasti, Málmsteypu Þorgríms Jónssonar, Nox Health, Greiðslumiðlun Íslands, Gröfu og Grjóti og Travel Connect. Umbreyting II hefur því að þeirra sögn sveigjanleika til að fjárfesta í fjölbreyttum fyrirtækjum, styðja við vöxt þeirra og vera ákveðið hreyfiafl í íslensku atvinnulífi.

„Við búum að því að hafa náð góðum árangri með fyrri sjóðinn og sáum áframhaldandi tækifæri í að halda áfram að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og styrkja þau enn frekar. Við höfum fundið fyrir mikilli velvild í okkar garð frá hluthöfum Umbreytingar og margir þeirra tóku enn stærri stöðu í Umbreytingu II. Auk þess kom inn nokkur fjöldi nýrra fjárfesta. Í gegnum Umbreytingu hafa fjárfestar kynnst því vel hvernig við nálgumst verkefnin og mjög ánægjulegt er að sjá hve margir vildu vera hluti af nýja sjóðnum," segir Árni.

Eins og fyrr segir er Umbreyting II 15 milljarða króna sjóður en að sögn Árna og Markúsar var talsverð umframeftirspurn frá fjárfestum. Árni segir einnig mikinn styrk í því að hafa stóran og öflugan hóp einkafjárfesta í hluthafahóp sjóðsins sem býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á fyrirtækjarekstri og atvinnulífinu. „Þetta er mikil binding fyrir einkafjárfesta að setja fjármuni sína í svona langtímaverkefni en líftími sjóðsins er allt að 12 ár og erum við afar þakklát fyrir það traust sem okkur er sýnt."

Njóta góðs af fyrri verkefnum

Þeir benda á að fjárfestar sem komi nýir inn í Umbreytingu II muni njóta góðs af því að Alfa Framtak hafi þegar byggt upp sambönd við fjölda fyrirtækja sem skoðuð voru sem fjárfestingarmöguleiki fyrir Umbreytingu. „Í sumum tilfellum var bara ekki rétti tímapunkturinn til að koma inn sem nýr hluthafi, en sá möguleiki kann að hafa opnast nú eða kann gera það á næstunni. Við erum með nokkur verkefni til skoðunar þessa stundina sem gætu átt farveg inn í nýja sjóðinn. Það eru yfir 500 íslensk rekstrarfyrirtæki sem eru hluti af okkar fjárfestingarmengi," segir Árni.

Spurðir um hvenær megi reikna með að fyrsta fjárfesting Umbreytingar II verði að veruleika segja þeir ekki meitlað í stein hvenær hún verði frágengin. „Við höfum þó sett okkur markmið um að fjárfesta fyrir hluta af sjóðnum á þessu ári, en að sjálfsögðu alltaf með því skilyrði að fjárfestingin sé góð. Við höfum samkvæmt samþykktum sjóðsins næstu fjögur ár til að fjárfesta. Okkur liggur því ekki lífið á en vonandi verður gengið frá fyrstu fjárfestingunni áður en árið er á enda," segir Markús.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu

Viðskiptablaðið, 13 apríl 2022

Previous
Previous

Athafnafólk: Gunnar Páll ræddi við Sesselju Vilhjálmsdóttur

Next
Next

Hundrað daga plan leggur grunn að umbreytingum Alfa Framtaks