Alfa Framtak klárar fjármögnun á 15 milljarða króna framtakssjóði
Alfa Framtak hefur lokið fjármögnun á 15 milljarða króna framtakssjóði. Talsverð umframeftirspurn var eftir áskriftarloforðum í sjóðinn.
Alfa Framtak hefur lokið fjármögnun á 15 milljarða króna framtakssjóði. Sjóðurinn ber heitið Umbreyting II slhf. og mun fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum. Talsverð umframeftirspurn var frá fjárfestum, en hluthafar nýja sjóðsins eru lífeyrissjóðir, tryggingafélög og aðrir fjársterkir einstaklingar.
Alfa Framtak hefur frá árinu 2018 rekið sjö milljarða króna framtakssjóðinn Umbreytingu slhf., sem er nú full fjárfestur. Nýr sjóður hefur sambærilegar áherslur og hefur því sveigjanleika til þess að fjárfesta í fjölbreyttum fyrirtækjum, styðja við vöxt og að leiða umbreytingar í íslensku atvinnulífi. Sjóðurinn mun fjárfesta í fimm til níu fyrirtækjum og verður eignarhaldstíminn í hverju félagi að meðaltali fjögur til sex ár.
Þakklátur fyrir traustið
Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, segist þakklátur fyrir það traust sem íslenskir fjárfestar sýni félaginu. „Það er mikil viðurkenning fyrir okkar störf að jafn stór hópur íslenskra fagfjárfesta skuli sýna okkur þetta traust. Stór hluti þessara fjárfesta hafa verið með okkur frá árinu 2018, þegar við hleyptum fyrsta framtakssjóðnum okkar af stokknum og fleiri hafa nú bæst í hópinn.“
Stjórn nýja sjóðsins skipa Friðrik Jóhannsson, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, Finnur R. Stefánsson, Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir og Jón Sigurðsson (fráfarandi forstjóri Össurar). Varastjórn sjóðsins er skipuð Friðriki Stein Kristjánssyni og Marinellu Haraldsdóttur. „Ég hlakka einnig mikið til samstarfsins við stjórn sjóðsins, en hún er skipuð einstaklega öflugum hópi fólks, með umfangsmikla reynslu úr íslensku og alþjóðlegu viðskiptalífi.“
Hjá Alfa Framtak starfa nú auk Gunnar Páls, fjórir starfsmenn. Árni Jón Pálsson, er einn stofnenda félagsins, en hann gegnir stöðu fjárfestingastjóra. Markús Hörður Árnason, gekk til liðs við félagið sem meðeigandi og fjárfestingastjóri haustið 2021, eftir um 13 ár í fjárfestingum hjá TM. Rakel Guðmundsdóttir, gegnir stöðu eignarhaldsstjóra, en hún hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2018. Hörður Guðmundsson, sérfræðingur, gekk til liðs við Alfa Framtak árið 2020.
Þörf á virkri nálgun í fjárfestingum
Markús Hörður Árnason, sér mikil tækifæri í óskráðum fyrirtækjum og telur þörf á virkri nálgun í slíkum fjárfestingum vera til staðar. „Við fjárfestum í fyrirtækjum, oftast sem meirihlutaeigendur og beitum okkur markvisst fyrir virðisaukningu. Stefna okkar er að skila fyrirtækjum af okkur í betra ástandi en þegar þau voru keypt og þannig skilja eftir okkur jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi. Nýr og stærri sjóður getur stutt við öflug fyrirtæki og sterk teymi sem vilja auka virði og grípa tækifæri á fjölbreyttum mörkuðum.“
Árni Jón Pálsson segir reynslu fyrri sjóðs vera vísbendingu um mikilvægi framtakssjóða á íslenskum fjármagnsmarkað. „Frá því að fyrsti sjóðurinn var stofnaður höfum við fjárfest í sex fyrirtækjum. Þó þetta séu fyrirtæki í ólíkum geirum, eiga þau það öll sameiginlegt að hafa þurft á öflugum og virkum fjárfesti að halda sem gæti stutt við sýn stjórnenda. Íslenskur fjármagnsmarkaður er í mikilli mótun, en það er hlutverk framtakssjóða að koma góðum fyrirtækjum á næsta stig, hjálpa þeim að vaxa og í sumum tilfellum skila þeim inn á hlutabréfamarkaði.“
Til staðar fyrir stjórnendur og athafnafólk
Sjóðir Alfa Framtaks hafa stutt við sex fyrirtæki þ.e. Borgarplast, Málmsteypu Þorgríms Jónssonar, Nox Health, Greiðslumiðlun Íslands, Gröfu og Grjót og Travel Connect. „Við fjárfestum fyrst og fremst í íslenskum fyrirtækjum, en það er okkar mat að þau eigi almennt séð miklu meira inni, hvort sem það eru stöndug rekstrarfyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki í kynslóðaskiptum, eða vaxtarfyrirtæki. Með því að starfa þétt með stjórnendum og athafnafólki getum við bætt árangur, mótað sýn og stefnur, bætt rekstur og fjármagnsskipan, hraðað vexti, en jafnframt komið þeim inn í framtíðina með aðgerðum á sviði sjálfbærni- og tæknimála.“ segir Rakel Guðmundsdóttir, eignarhaldsstjóri.
„Nýi sjóðurinn hefur jafnframt heimild til þess að fjárfesta í fyrirtækjum erlendis, með því skilyrði að þau séu í OECD ríki og tengist aðkomu íslenskra fyrirtækja eða aðila sem hafa sérþekkingu á undirliggjandi rekstri. Það er gífurlega mikilvægt fyrir íslenskan efnahag að auka útflutning og að hjálpa íslenskum fyrirtækjum að selja inn á fleiri markaði. Fjárfestingarstefna okkar heimilar nú enn frekari stuðning við slík fyrirtæki.“ segir Markús Hörður Árnason. „Við höfum góða reynslu af þessu, en við höfum fjárfest í tveimur útflutningsfyrirtækjum. Nox Health, þróar og selur svefnrannsóknarlausnir í Bandaríkjunum og Travel Connect, starfar í ferðaþjónustu á Íslandi, Skotlandi og Norðurlöndunum. Þessi fyrirtæki eru íslensk, en selja vörur og þjónustu á alþjóðlegum mörkuðum. Fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa burði til þess að sækja á nýja markaði eða eru nú þegar að því og þurfa frekari stuðning í formi fjármagns og þekkingar.“, bætir Árni Jón Pálsson við.