Fjárfestingar í lágvaxtaumhverfi
Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, tók nýlega þátt í pallborðsumræðum um fjárfestingar í lágvaxtaumhverfi.
Félag viðskipta- og hagfræðinga stóð nýlega fyrir pallborðsumræðum um fjárfestingar í lágvaxtaumhverfi. Viðmælendur voru Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá Kviku Eignastýringu, og Snædís Ögn Flosadóttir framkvæmdastjóri EFÍA. Harpa Rut Sigurjónsdóttir, viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði Arion banka var fundarstjóri.
Fjármagnsstiginn þarf að virka
Gunnar segir nýjar aðstæður í þjóðfélaginu kalla á ögn meiri áhættusókn. „Við erum með einstaklega duglegt vinnuafl, en fjármagnið hefur að mörgu leiti verið of góðu vant. Það hefur einfaldlega verið letjandi að taka meiri áhættu. Þegar ég hóf störf á fjármálamarkaði voru um 70 félög skráð hér á landi og það var mikið líf á mörkuðum. Fyrirtæki sóttu sér fé til þess að geta vaxið. Sterkur íslenskur fjármálamarkaður var ákveðin forsenda þess að fyrirtæki á borð við Marel og Össur gátu vaxið. Í dag er kauphöllin þannig samsett að flest félögin flokkast sem einskonar virðisfyrirtæki. Núna vantar vaxtarfyrirtæki og fleiri einkafjárfesta sem geta tekið þátt í skoðanaskiptum á markaði. Við sem stýrum framtakssjóðum verðum einnig að gera okkar og skila fyrirtækjum inn á skráða markaðinn. Fjármagnsstiginn þarf einfaldlega að virka.“
Tækifæri í núverandi umhverfi
Þó núverandi markaðsaðstæður séu krefjandi, einkum vegna Covid-19, telur Gunnar ýmis tækifæri vera til staðar. „Við höfum verið afar varkár í okkar fjárfestingum. Í raun hefur verið talsverður órói á mörkuðum frá því að fyrsti framtakssjóður Alfa Framtaks var settur á fót 2018. Fyrst var það WOW, óvissa á vinnumarkaði og síðan kom Covid. Um áramótin höfðum við skoðað um 265 fjárfestingar frá stofnun, en aðeins fjárfest í fjórum. Lífið á þessum óskráða markaði hefur svo bara verið að aukast, en í desember voru fjögur mál borin undir stjórn og þrjú mál núna í byrjun árs. Við erum einnig í tveimur áreiðanleikakönnunum um þessar mundir.“ Gunnar telur þó einnig þjóðhagslega mikilvægt að til séu sjóðir sem geti gripið íslensk tæknifyrirtæki, sem hafa undanfarið mörg hver verið seld úr landi. „Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að verið sé að selja öflug tæknifyrirtæki úr landi. Það er þjóðfélagslega mikilvægt að sérhæfðir íslenskir fjárfestar geti gripið þessi fyrirtæki svo hægt sé að skapa fleiri hátæknistörf hér á landi.“
Upptökuna í heild sinni má finna hér.