Alfa Framtak fjárfestir í Thor Ice
Framtakssjóður á vegum Alfa Framtaks leiddi hlutafjáraukningu í Thor Ice Chilling Solutions. Með hlutafjáraukningunni er ætlað að styðja við frekari vöxt félagsins.
Framtakssjóðurinn Umbreyting II slhf., í rekstri Alfa Framtaks, leiddi nýverið 500 m.kr. hlutafjáraukningu í Thor Ice Chilling Solutions. Um er að ræða íslenskt vaxtar- og hátæknifyrirtæki sem hefur þróað einkaleyfisvarða tækni, sem nýtir ískrapa sem kælimiðil í matvælaframleiðslu.
Viðskiptablaðið fjallaði um félagið í september þegar Thor Ice landaði samningi við LDC Group, einn stærsta kjúklingaframleiðanda Evrópu. Helsta vara félagsins, sem ber heitið IceGun, hjálpar kjúklingaframleiðendum að besta kælingu í framleiðslu. Um er að ræða alþjóðlegt vandamál, en kælimiðlar á borð við loftkælingu og vatnskælingu geta verið flöskuháls hjá framleiðendum, bæði þar sem kjúklingar hafa verið að stækka og sífellt er verið að reyna að hraða framleiðslulínum. Stjórnvöld hafa jafnframt sett strangari kröfur um kælingu í framleiðsluferli sem hefur aukið eftirspurn eftir kælilausnum.
Markús Árnason, fjárfestingastjóri hjá Alfa Framtak, segir félagið vera á tímamótum. „Thor Ice hefur á síðustu árum skapað áhugaverða lausn sem er farin að sanna gildi sitt á mjög stórum markaði á alþjóðavísu. Fyrirtækið er nú komið af sprotastigi yfir á vaxtarstig og við teljum mikil tækifæri vera til staðar fyrir lausnir félagsins. Með fjárfestingunni ætlum við okkur að styðja við félagið þannig að það nái markmiðum sínum á næstu árum.“
Félagið var formlega stofnað árið 2014, en framkvæmdastjóri þess heitir Þorsteinn Ingi Víglundsson. Hjá Thor Ice starfa í dag tíu einstaklingar og hafa reyndir ráðgjafar m.a. Dr. Jakob K. Kristjánsson og Pétur Guðjónsson, sem gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra alþjóðlegrar sölu og þjónustu hjá Marel, stutt við félagið í vöruþróun og sölu.
„Við erum virkilega ánægð að fá Alfa Framtak til liðs við okkur í að efla félagið til framtíðar. Öflug og viðamikil reynsla þeirra í vexti og rekstri mun án efa hafa verulega jákvæð áhrif á vöxt félagsins næstu árin. Mikil og skýr þörf er á markaði fyrir kælilausn eins og okkar sem leysir alvarleg vandamál framleiðenda í kjúklingavinnslu. Félagið er komið á vaxtarstig og getur nú styrkt teymið enn frekar og ráðist í sókn á næstu 18 mánuðum,“ segir Þorsteinn Ingi Víglundsson um aðkomu sjóðsins.
Alfa Framtak ehf. er rekstraraðili sérhæfðra sjóða. Alfa Framtak sérhæfir sig í fjárfestingum og stuðningi við stjórnendur, athafnafólk og fyrirtækjaeigendur sem vilja ná því besta út úr sínum rekstri. Markmið félagsins er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu og þannig skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi.
Umfjallanir: