Áslaug til Alfa Framtaks

Áslaug Gunnarsdóttir hefur verið ráðin til Alfa Framtaks sem sérfræðingur í framtaksfjárfestingum. Áslaug kemur til félagsins frá Saxo Bank í Kaupmannahöfn.

Áslaug Gunnarsdóttir hefur verið ráðin til Alfa Framtaks sem sérfræðingur í framtaksfjárfestingum. Hún kemur til Alfa Framtaks frá Saxo Bank í Kaupmannahöfn þar sem hún hefur starfað síðastliðinn tíu ár. Þar stýrði hún teymi innan markaða og fjárstýringar og sinnti þar áður fjölbreyttum hlutverkum innan áhættustýringar bankans. Áslaug er ein stofnenda KÖTLU Nordic, félags ungra athafnakvenna á Norðurlöndunum.

Áslaug er með B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í Applied Economics and Finance frá Copenhagen Business School. “Ég geng til liðs við Alfa Framtak full eftirvæntingar og hlakka til að taka þátt í áframhaldandi vexti og þróun félagsins. Teymi Alfa Framtaks er fullt af drifkrafti og hæfni sem ég hlakka til að vinna með að fjölbreyttum verkefnum í íslensku atvinnulífi eftir áratug erlendis, “ segir Áslaug Gunnarsdóttir sem hefur störf hjá félagsinu 1. september næstkomandi.

„Við erum spennt að fá Áslaugu til liðs við okkur. Hún er leiðtogi að eðlisfari og býr yfir dýrmætri reynslu erlendis frá sem mun nýtast okkur vel í þeim fjölbreyttu verkefnum sem framundan eru,“ segir Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks.

Alfa Framtak ehf. er rekstraraðili sérhæfðra sjóða, en fyrirtækið sérhæfir sig í fjárfestingum og stuðningi við stjórnendur, athafnafólk og fyrirtækjaeigendur sem vilja ná því besta út úr sínum rekstri. Markmið félagsins er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu og þannig skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi. Sem samstarfsaðili beitir Alfa Framtak sér með virkum hætti og hefur sveigjanleika til þess að fjárfesta í fjölbreyttum fyrirtækjum, styðja við vöxt og leiða umbreytingar.

Alfa Framtak rekur tvo framtakssjóði með með samtals 22 milljarða króna í áskriftarloforð. Sjóðir í rekstri Alfa Framtaks hafa fjárfest í fyrirtækjum á borð við Origo, INVIT, Travel Connect, Thor Ice Chilling Solutions, Nox Health, Greiðslumiðlun Íslands, og Málmsteypu Þorgríms Jónssonar. 

Previous
Previous

Alfa Framtak fjárfestir í hótelum

Next
Next

Anna Þorbjörg til Alfa Framtaks