Metfé til framtakssjóða og vísissjóða svalar uppsafnaðri þörf

Nýir framtakssjóðir og vísissjóðir hafa á undanförnum tólf mánuðum safnað samtals 90 milljörðum króna frá fjárfestum. Aldrei áður hefur jafnmikið fjármagn leitað í fjárfestingafélög af þessum toga. Innherji ræddi við Gunnar Pál, framkvæmdastjóra Alfa Framtaks, um umhverfið og tækifærin sem sjóðirnir standa frammi fyrir.

Í ratsjá Alfa Framtaks eru fleiri en fimm hundruð rekstrarfyrirtæki sem uppfylla þau stærðarmörk sem sjóðastýringarfélagið miðar við. „Þetta er stórt mengi og við höfum ekki rekist mikið á aðra framtakssjóði í fyrri fjárfestingum. Það er nóg að bíta og brenna fyrir alla þessa sjóði og auk þess hafa þeir mismunandi áherslur við að ná fram virðisaukningu“ segir Gunnar.

Aukin áhersla á vaxtafyrirtæki

Framtakssjóðir fjárfesta jafnan í rótgrónum rekstrarfélögum en í umhverfi lágra vaxta má búast við aukinni áherslu á fjárfestingar í vaxtarfyrirtækjum.

„Sjóðirnir okkar, Umbreyting I og II, leggja áherslu á umbreytingarverkefni eins og nöfnin gefa til kynna. Við sjáum líka aukin tækifæri í vaxtarfyrirtækjum,“ segir Gunnar Páll hjá Alfa Framtaki. Ásamt því að fjárfesta í rótgrónum rekstrarfyrirtækjum fjárfesti Umbreyting I í Nox Health, sem er í mikilli sókn á erlendum mörkuðum.

„Það er að vissu leyti afleiðing lágvaxtaumhverfisins,“ útskýrir Gunnar Páll. „Ef vextir eru mjög lágir þá skiptir minna máli hvort sjóðstreymið komi á fyrsta árinu eða fimmta árinu. En einnig hafa vísissjóðir staðið sig vel í því að skila öflugum vaxtarfyrirtækjum. Það er hlutverk framtakssjóða að hafa burði til að taka við þeim og, í einhverjum tilfellum, skila þeim inn á skráða markaðinn svo að við missum ekki fyrirtækin úr landi.“

Viðtalið í heild sinni mál lesa á vef Innherja.

Innherji, 19. janúar 2022

Previous
Previous

Móðurfélag Nordic Visitor verður Travel Connect

Next
Next

Alfa Framtak safnar í Umbreytingu II