Brynja ráðin forstjóri Greiðslumiðlunar Íslands

Brynja Baldursdóttir hefur tekið við starfi forstjóra Greiðslumiðlunar Íslands (GMÍ). Sigurður Arnar Jónsson hefur samhliða þessum breytingum látið af störfum sem forstjóri félagsins eftir að hafa starfað ötullega að uppbyggingu félagsins frá stofnun árið 1995. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu og var greint frá í Fréttablaðinu.

GMÍ og dótturfélög, Motus og Greiðslumiðlun, starfa á sviði kröfustjórnunar (Credit Management Services) fyrir fyrirtæki, sveitarfélög, lífeyrissjóði og opinbera aðila. Þjónusta samstæðunnar felst m.a. í greiðslulausnum, innheimtu, kröfukaupum og lánaumsýslu. Greiðslumiðlun á og rekur meðal annars Pei greiðslulausnina sem um 2.000 fyrirtæki nýta sér sem greiðslulausn við sölu á vörum og þjónustu til einstaklinga.

Í fréttatilkynningunni er Brynja sögð hafa mikla reynslu af uppbyggingu á starfrænum lausnum og þjónustu, og muni sú þekking styrkja enn frekar þróun á lausnum á sviði almennrar fjármálaþjónustu hjá félaginu. Nýjar lausnir fela meðal annars í sér bætta ákvarðanatöku í lánastarfsemi og innheimtuferlum sem byggja á gagngalíkönum og gervigreind auk þess að nýta í auknum mæli stafrænar leiðir við afhendingu á þjónustu.

Brynja gegndi stöðu framkvæmdastjóra Creditinfo Lánstrausts síðastliðin sex ár, þar af sem svæðisstjóri yfir Íslandi og Eystrasaltslöndunum síðustu fjögur ár. Þar leiddi hún nýsköpun í vöruþróun, með áherslu á flóknari tölfræðilegar lausnir og upplýsingatækni og endurskipulagningu í rekstri. Brynja er með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og mastersgráðu í aðgerðagreiningu frá Georgia Institute of Technology. Hún situr í stjórn Viðskiptaráðs, Fossa markaða og Véla- og verkfæra.

Fréttablaðið, 12. ágúst. 2021

Greiðslumiðlun Íslands - Umbreyting I - Brynja Baldursdóttir

Previous
Previous

Markús til Alfa Framtaks

Next
Next

Borgarplast framleiðir toghlera fyrir Pólar