Tíðar breytingar á reglum eru til ama

Fram undan er áhugavert skeið fyrir fjárfesta enda fordæmalausir tímar í hagkerfinu og atvinnulífinu. Verður gaman að sjá hvernig Árni Jón og félagar hjá Alfa Framtak munu láta að sér kveða og nýta komandi misseri til að virkja það fjármagn sjóðsins sem enn er óráðstafað.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Fyrir utan það augljósa með Covid og óvissu sem faraldrinum fylgir þá verður það fyrir okkur hjá Alfa Framtak að finna góðar fjárfestingar en við eigum nú eftir að fjárfesta fyrir tæplega 3 ma.kr. Ég er sannfærður um að mikil tækifæri muni myndist í vetur í fjöldamörgum geirum og munu sameiningar vera megin þemað.

Fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki eru ein helsta áskorunin að sitja ekki eftir í innleiðingu stafrænna lausna og koma sér upp og nýta sér hinar ýmsu lausnir sem auðvelda yfirsýn, veita rauntímaupplýsingar um reksturinn og hjálpa starfsmönnum að sinna sínum störfum ásamt því að geta sjálfvirknivætt ákveðna rútínuferla. Þau fyrirtæki sem láta við sitja að fjárfesta í þessari þróun munu eiga erfitt að fóta sig samkeppnislega þegar fram í sækir.

Hvaða bækur hafa haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Howard Marks sem skrifaði „The Most Important Thing“ hefur haft mikil áhrif á hvernig ég hugsa og starfa sem fjárfestir en hann hefur einnig skrifað vinsæl minnisblöð til sinna fjárfesta hjá Oak Tree frá því 1990. Howard hefur einstaka sýn á áhættu, líkindamat á framtíðinni og hvernig hann horfir til fjárfestinga. Einnig horfi ég mikið til Ray Dalio sem skrifaði Principles en í bókinni deilir hann því hvernig hann hefur byggt upp kúltúr og kerfi innan síns fyrirtækis við ákvörðunartöku en hann stýrir nú 140 milljörðum dollara. Að lokum skrifaði Chriss Voss, sem var aðalsamningamaður FBI í gíslatökum, frábæra bók sem heitir „Never split the difference“ eftir að hann hætti hjá FBI.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ég er í því starfi sem ég hugsaði sem mitt draumastarf þegar ég var unglingur en ætli það yrði ekki eitthvað allt annað en ég geri í dag og þá tengt veiði og útivist. Það er eitthvað einstakt við að vera í afskekktri náttúru og virkilega tengjast umhverfinu en jafnframt upplifa spennuna við veiðarnar. Ef ég hins vegar yrði að fá borgað fyrir starfið hefur mig alltaf langað til að kunna fljúga þyrlu.

Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ég myndi fara í MBA nám við einhvern góðan skóla í Bandaríkjunum. Námið er mjög hagnýtt og snýr að stjórnun, stefnumótun, samningatækni og fleiru gagnlegum fróðleik um fyrirtækjarekstur og myndi nýtast mér vel við það sem ég starfa við í dag.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Kostirnir eru að við styðjum ágætlega við ung og efnileg fyrirtæki þar sem ríkið endurgreiðir t.d. 35% af þróunarkostnaði þeirra, fjármögnunarumhverfið er nokkuð sterkt og við erum að útskrifa mikið af sprenglærðu öflugu fólki sem fyrirtæki hafa aðgang að til að hjálpa til við verðmætasköpun.

Gallarnir eru sífelldar breytingar á umgjörð og reglum sem gilda um fyrirtækjarekstur ásamt íþyngjandi eftirliti og flóknu skattkerfi. Allt tekur þetta fókus frá verðmætasköpun fyrirtækja.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég myndi segja að mér hefur funstist best að umgangast og vera í samskiptum við drífandi og jákvætt fólk sem er með ólíkan bakgrunn en ég og er hugmyndaríkt og óhrætt við að segja sína skoðun. Annars fyllist ég oft miklum eldmóði þegar ég tek upp bók sem ég tengi strax við og get ekki lagt frá mér fyrr en ég hef klárað hana.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Ætli ég myndi ekki reyna að einfalda sem mest opinbert regluverk, afnema erfðafjárskatt, lengja fæðingarorlof, búa til eitt skattþrep, setja lög um rafræna stjórnsýslu, gera heimilum kleift að ráðstafa sjálft hluta af lífeyrissparnaði, láta fjármagnstekjuskatt aðeins gilda á raunvexti (umfram verðbólgu) og minnka allskyns eftirlit og tilkynningaskyldur fyrirtækja.

- Viðtalið birtist í viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 5. ágúst 2020



Previous
Previous

Auglýsa eftir níu starfsmönnum

Next
Next

Ný tækni frá Nox