Ræða viðskipti í nýju hlaðvarpi
Forsvarsmenn Alfa framtaks sem rekur sjö milljarða króna framtakssjóð hafa heypt af stokkunum hlaðvarpi þar sem þeir ræða við fólk úr viðskiptalífinu. Það gengur einfaldlega undir nafninu Alfa hlaðvarp og má finna í helstu hlaðvarpsveitum.
Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa framtaks, segir að viðmælendur séu valdir með það í huga hverjir séu líklegir til geta kennt öðrum með því að miðla af reynslu sinni.
Á meðal viðmælenda hafa verið Guðmundur Hafsteinsson, fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar Google Assistant og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair Group.
Á morgun, föstudag, mun birtast viðtal við Harald Þorleifsson, stofnanda vefhönnunarfyrirtækisins Ueno. Fyrirtækið var stofnað árið 2014 og er með skrifstofur í þremur borgum í Bandaríkjunum og eina í Hafnartorgi í Reykjavík. Félagið þénaði 1,7 milljarða króna í fyrra og hagnaðist um 128 milljónir króna.
Alfa framtak rekur framtakssjóðinn Umbreytingu sem leggur áherslu á umbreytingarverkefni. Hann keypti og sameinaði rekstur Borgarplasts og Plastsgerðar Suðurnesja og fjárfesti í Greiðslumiðlun Íslands.
Endurskipulögðu rekstur Hotel D'Angleterre
Alfa framtak hét áður Icora Partners og sinnti fyrirtækjaráðgjöf en hóf að reka fjárfestingarsjóð árið 2017. Icora Partners, sem stofnað varárið 2010 af Gunnari Páli og Friðriki Jóhannssyni sem stýrði fjárfestingafélaginu Burðarási í tíu ár, endurskipulagði meðal annars rekstur þriggja danskra hótela eftir fjármálahrunið, þar á meðal Hotel D'Angleterre, annaðist sölu á Verði tryggingafélagi, Kynnisferðum og KEA hótelum og aðstoðaði Meniga við að afla eins milljarðs króna í aukið hlutafé.
„Í fréttum er mikið fjallað um afkomu fyrirtækja, laun starfsmanna, gengisþróun á hlutabréfamarkaði og um kaup og sölu á fyrirtækjum,“ segir Gunnar Páll. „Við vildum leggja okkur af mörkum og kafa undir yfirborðið. Fjalla opinberlega um hvað varð þess valdandi að tiltekin fyrirtæki sköruðu fram úr, fyrir hvaða áskorunum stóðu þessir einstaklingar frammi fyrir á leið sinni, hvernig tókust þeir á við þær, hvað lærðu þeir og hvað þykir þeim gagnlegt að aðrir viti svo draga megi lærdóm af þeirra reynslu. Við getum öll lært af hvert öðru.“
Mikilvægt að fólk miðli af reynslu sinni
„Til að skapa hagvöxt og efla viðskiptalífið þurfa þátttakendur í því að hafa sjálfstraust til að takast á við krefjandi verkefni. Viðskiptalífið er undirstaða lífskjara í landinu. Og til að öðlast sjálftraust getur verið gott að hafa fyrirmyndir til að læra af. Við þurfum öll innblástur og góð ráð. Það er því mikilvægt fyrir heildina að til sé fólk sem miðlar af sinni reynslu,“ segir Gunnar Páll.
„Það gleymist líka oft að það getur verið gaman að stunda viðskipti, þetta er ekki jafn þurrt og leiðinlegt og margir halda. Það kemur margt skemmtilegt upp á í dagsins önn sem gaman er að ræða.
Ég stóð mig einnig að því að ég vissi miklu meira um sögu Apple og Microsoft en til dæmis sögu Marels og Össurar. Mér þótti því mikilvægt að skapa vettvang þar sem hægt væri að fræðast um uppgang íslenskra fyrirtækja.
Menningin í viðskiptalífinu mætti líka vera meira árangursdrifinn. Við viljum miðla þeirra lexíu í þáttunum og vonumst til að viðskiptalífið tileinki sér það í meira mæli.
Enn fremur er hlaðvarpið vettvangur til að vekja athygli á okkur í Alfa framtaki og því sem við stöndum fyrir. Við viljum vinna með fólki sem er með árangursmiðað hugarfar.
Þessu til viðbótar erum við í teyminu alltaf að tala um viðskipti við skemmtilegt fólk og okkur langaði að leyfa fleirum að heyra þau samtöl.
Það eru því ýmsar ástæður fyrir því að stigum þetta skref, að fara af stað með eigið hlaðvarp,“ segir hann.
Lærði mikið af viðmælendunum
Gunnar Páll segist hafa lært mikið af viðtölunum sem hann hafi tekið. „Guðmundur Hafsteinsson sagði frá sýn sinni á vöruþróun og hvað sé mikilvægt að hafa í huga í þeirri vinnu. Hann sagði að ef þú þykist vita svarið við upphaf vöruþróunar þá ertu ekki réttri leið.
Hann sagði líka að það ætti að þróa tækni miðað við hvernig umhverfið verður eftir tvö ár. Tækninni fleygir nefnilega áfram og með þeim hætti getur varan staðist tímanns tönn þegar hún kemur á markað.
Guðmundur hugsar í lausnum og spyr sig í sífellu hvernig megi gera eitthvað á þremur mínútum sem tekur nú fimm mínútur. Það hugarfar lærði hann í atvinnuviðtali við Jeff Bezos, stofnanda Amazon.“
Hitti marga af þeim helstu í Kísildalnum
„Það er líka svo skemmtilegt að hann hefur hitt marga af helstu viðskiptamógúlunum í tækniheiminum. Hann sagði okkur til dæmis frá fundi sem hann sat með Steve Jobs, stofnanda Apple og samskiptum sínum við þrjá lykilstjórnendur Google, þá Eric Schmidt forstjóra og stofnendanna Sergey Brin og Larry Page,“ segir Gunnar Páll.
„Eva Sóley, sem var í síðasta þætti, er í einu mest krefjandi stjórnendastarfi á Íslandi um þessar mundir en stjórnendur Icelandair Group urðu að horfast í augu við að um 25 prósents flugflotans var kyrrsettur í vor þegar nýju flugvélunum frá Boeing var bannað að fljúga. Það var ekki að merkja á henni að erfiðleikarnir í rekstrinum hafi tekið sinn toll heldur skein í gegn hvað hún er jákvæð, drífandi og metnaðarfull.
Viðtalið við Harald snerti mig mikið. Við Íslendingar erum oft tilfinningalegir tréhestar en hann var ófeiminn við að opna sig og deila með okkur þeim áföllum og erfiðleikum sem hann hefur tekist á við á lífsleiðinni. Hann er með vöðvarýrnunarsjúkdóm og er bundinn við hjólastól. Hann talaði opinskátt um að hann hafi verið fullur í fimm ár, tekið sig á og byggði í kjölfarið upp eitt glæsilegasta fyrirtækisins landsins. Það er mögnuð saga,“ segir Gunnar Páll.
Viðtölin fara fram í hljóðveri og starfsmaður þess annast hljóðupptökuna. Fyrir hvert viðtal ræða starfsmenn Alfa framtaks saman um hvað væri áhugavert að fræðast um, því næst hitta þeir viðmælandann í 20-30 mínútur til að heyra hvað viðkomandi þykir áhugaverðast að deila með öðrum. Einhvern annan dag er viðtalið tekið upp.
„Ég vil ekki að undirbúningsspjallið verði of langt, ég vil fá að heyra frásögnina í fyrsta skipti í viðtalinu til að geta brugðist einlæglega við og samtalið flæði eðlilega,“ segir Gunnar Páll.
Hann segir að það sé allur gangur á því hvort starfsmenn Alfa framtaks hafi þekkt viðmælandann fyrir viðtalið. „Suma viðmælendur þekkjum við nokkuð og aðra höfum við aldrei talað við áður.“ Búið er að ákveða hverjir verða í næstu tveimur þáttum.
Alfamessan brýtur viðtölin til mergjar
Viðtölin hafa birst annan hvern föstudag í hlaðvarpsveitum. „Eftir þriðja þáttinn, þar sem rætt er við Harald, stefnum við Rakel Guðmundsdóttir samstarfskona mín á að fá til okkar tvo sérfræðinga og greina fyrstu þrjú viðtölin. Hugmyndin er að taka saman hvað megi læra af þáttunum. Vinnuheitið á þættinum er Alfamessan því þetta á að vera eins og Messan í fótboltanum þar sem rætt er í þaula um nýafstaðna leiki,“ segir Gunnar Páll.
Hlaðvarp Tim Ferris, sem skrifaði meðal annars bókina The 4-Hour Workweek, er eitt þeirra sem Gunnar Páll hlustar á og hafði áhrif á hvernig hann nálgast þætti Alfa framtaks. „Tim Ferris ræðir við fólk sem hefur náð miklu árangri á sínu sviði og reynist að skyggnast á bak við það sem olli velgengninni. Af öðrum hlaðvörpum sem ég hlusta á má nefna School of Greatness, How I Built This og Business Lunch.
Snorri Björns heldur einnig úti framúrskarandi hlaðvarpi þar sem hann ræðir við fólk á ýmsum sviðum, en einkum íþróttum, um það hver sé lykillinn að þeirra árangri,“ segir hann.