Minningasmiður leitar fjárfestinga
Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, rekur sjö milljarða framtakssjóð sem fjárfestir í íslenskum fyrirtækjum. Það á eftir að fjárfesta tæplega helming af fjárhæðinni. „Helsta verkefnið fram undan er að finna álitleg tækifæri fyrir sjóðinn í þessu efnahagsástandi,“ segir hann.
Hver eru þín helstu áhugamál?
Ég sá alltaf eftir því að hafa ekki æft körfubolta, en er að fá útrás fyrir það núna rúmlega fertugur. Ég stunda körfu yfir veturinn. Ég hef aðallega stundað golf á sumrin en hef verið að færast meira yfir í fjallahjólreiðar, aðallega svo ég sjái eiginkonu mína eitthvað yfir sumartímann. Síðan er engin helgi eða frí fullkomið án þess að ég nái að lesa eða hlusta á bækur. Loks má nefna að ég er í karlakórnum Esju sem er frábær félagsskapur.
Nærðu að halda jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs?
Það sagði einhver að kosturinn við að vera í eigin rekstri væri að maður getur ráðið hvaða 12 tíma á dag maður vinnur. Annars elska ég viðfangsefni mín í vinnunni og hef ekki séð þörf fyrir að telja vinnutímana mína síðastliðin 10 ár. Vinnan flæðir því almennt vel saman við annað í mínu lífi. Ég elska að verja tíma með fjölskyldunni og hef fengið titilinn minningasmiður, enda skipulagt nokkrar eftirminnilegar ferðir okkar undanfarin ár. Eiginkona mín á þó mestan heiður af því jafnvægi sem við höfum í okkar fjölskyldulífi.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?
Það eru svo margar bækur sem hafa haft áhrif á mig. En bókin sem hafði einna mest áhrif á mig er Your Money or Your Life sem ég las fyrir ellefu árum síðan. Ég missti vinnuna í fjármálahruninu og hafði ekki lagt vel fyrir. Bókin hjálpaði mér að móta okkur fjölskyldunni sýn í persónulegum fjármálum. Annars hef ég brennandi áhuga á því hvernig einstaklingar, fyrirtæki og lönd ná árangri og les því mikið tengt því.
„Að starfa við kaup og sölu á fyrirtækjum er mjög gefandi því maður er oft að vinna með fólki á stórum stundum í lífi þess..“
Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?
Að vera til staðar fyrir þau fyrirtæki sem við eigum í eignasafni okkar á þessum erfiðu tímum. Þau fyrirtæki eru Nox Health, Borgarplast, Málmsteypa Þorgríms Jónssonar og Greiðslumiðlun Íslands. Annars teljum við eignasafn okkar vera traust og fyrirtækin búa að frábærum stjórnendum og starfsfólki.
Hver eru helstu verkefnin fram undan?
Við eigum ófjárfest tæplega helming af 7 milljarða framtakssjóði okkar sem fjárfestir í íslenskum fyrirtækjum. Helsta verkefnið fram undan er að finna álitleg tækifæri fyrir sjóðinn í þessu efnahagsástandi.
Hvar sérðu þig eftir 10 ár?
Ég hef notið þess að vinna í fyrirtækjaráðgjöf og framtaksfjárfestingum í 20 ár og býst við að verða enn að eftir 10 ár. Að starfa við kaup og sölu á fyrirtækjum er mjög gefandi því maður er oft að vinna með fólki á stórum stundum í lífi þess. Sem dæmi voru Borgarplast og Málmsteypa Þorgríms búin að vera fjölskyldufyrirtæki í áratugi og sala þeirra til okkar var stórt skref í lífi allra þeirra einstaklinga.
Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?
Ætli það væri ekki kennari. Samspil þess að vera sífellt að læra og miðla því sem maður hefur lært er mjög gefandi. Faðir minn Tryggvi Pálsson, sem hefur verið mér mikil fyrirmynd, kenndi lengi til hliðar við aðalstörf sín sem bankamaður. Hann bjó meira að segja til nokkur orð sem enn eru notuð í dag, til dæmis sölutrygging og þjóðhagsvarúð. Mér finnst það dáldið töff.
- Viðtalið birtist í Markaðinum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, þann 8. maí 2020